14.7.2009 | 22:22
Hreinskilni samfylkingarinnar!
Í gær var mikill hreinskilnisdagur hjá samfylkingunni, Jóhanna Sigurðardóttir viðurkenndi í ræðustól að Samfylkingin hafi hótað Vinstri Grænum stjórnarslitum ef þingsályktun um aðildarumsókn að Evrópusambandinu yrði ekki samþykkt. Lítið hefur þó farið fyrir málefnalegri rökræðu um ástæður þess að Ísland eigi að ganga inn í ESB. Sú umræða hefur verið mjög áróðurskennd og lítið um haldbær rök. Mest öll orðræðan í málinu hefur verið frasakennd þar sem frasarnir lægra vöruverð, traust, krónan er dauð, Við þurfum að vera hluti að alþjóðasamfélaginu o.s.frv., o.s.frv.. Ágætis úrdráttur af innihaldslausum órökstuddum frösum er að finna í grein Baldurs Þórhallssonar í Fréttablaðinu þann 7. Júlí síðastliðinn.
Í Kastljósþætti gærkvöldsins var rætt við þau Margréti Tryggvadóttur, Helga Hjörvar, Ásmund Einar Daðason, Illuga Gunnarsson og Sif Friðleifsdóttur um þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þar kom reyndar fram en einn áróðurs frasinn frá Helga Hjörvari, "eigum við að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort halda eigi þjóðaratkvæðagreiðslu". Morfís-frasar Helga koma hreinlega á færibandi þessa dagana.
Það sem var áhugaverðast í þættinum var svar Helga Hjörvars við spurningu Sigmars Guðmundssonar stjórnanda þáttarins, sem spurði í lok hans, "hver eiga að vera helstu markmið ef við förum í þessar viðræður, hver eiga að vera helstu markmið þar".
Þetta var svar Helga Hjörvars,
Það er auðvitað út af forræði yfir sjáfarauðlindunum vegna þess líka að Evrópuþjóðunum hefur ekki gengið mjög vel að halda utan um sína fiskistofna, þar einmitt höfum við nokkuð til málanna að leggja og að gefa inn í Evrópusambandið. Hitt er auðvitað evran, og kannski ekki síst að fá sem allra fyrst stuðning evrópska seðlabankans við myntina sem við erum með og við þurfum að styðjast við á næstu árum sem er krónan, vegna ...
Það að tryggja forræði yfir sjáfarauðlindunum nefndi Helgi Hjörvar í framhjáhlaupi. Helgi skýrði samt ekki nánar með hvaða hætti það ætti að vera. Hvort hann heldur, að við getum tryggt að tekjur af sjávarútvegnum skili sér til íslensks samfélags, kom heldur ekki fram hjá honum. Í svarinu kemur líka fram að það væri mjög gott ef Evrópski seðlabankinn myndi styðja við Íslensku krónuna.
Ekkert nýtt var í þessum orðum en það sem var áhugaverðast í svari Helga er ástæðan fyrir því að hann telur að það sé mikilvægt að fá stuðning frá Evrópska seðlabankanum.
það er nefnilega Ekki ... vegna þess að íslensk heimili mega ekki við meiri gengislækkun (eða eitthvað í þeim dúr).
Nei, inngangan í ESB hefur ekkert með íslenskan almenning eða íslensk fyrirtæki að gera. Framhaldið á svari Helga var þetta,
... vegna þess að við verðum að gefa þeim alþjóðlegu fyrirtækjum sem enn eru hér starfandi og fjármálastofnanir eru að bjóða að flytja sig til annarra landa vegna þess að þau munu ekki njóta lánstrausts hér, við verðum að gefa þeim einhverja framtíðarsýn og einhverja ástæðu til þess að taka þennan slag við okkur og komast í gegn um þessi tvö þrjú erfiðu ár sem að við eigum hér fram undan til þess að við náum að auka hér verðmætasköpunina og standa undir þeim skuldbindingum við höfum verið að taka á okkur.
Með öðrum orðum eiga helstu markmiðin með aðild að vera að tryggja hagstætt umhverfi fyrir alþjóðleg fyrirtæki. Það er gott að fá loksins hreinskilið svar frá fulltrúa Samfylkingarinnar um það hvaða hagsmuni þeir eru að vernda. Þegar öllu er á botni hvolft snýst þetta ekki um hagsmuni íslensk almennings, þetta snýst ekki um lægra vöruverð (eitt af því sem samfylkingin hefur hangið á). Stöðuleikinn sem á að fást í Íslenskt efnahagslíf er ekki stöðugleiki fyrir íslenskan almenning. þetta snýst á endanum um að tryggja hagsmuni erlendra fjárfesta. Snúast öll stefnumál Samfylkingarinnar um að tryggja hagstætt fjárfestingarumhverfi fyrir erlend fyrirtæki? Er skjaldborgin svokallaða fyrst fremst ætluð til að vernda erlent fjármagn? Er ríkisábyrgð á Icesave líka ætluð til að vernda erlenda fjárfesta. Er kannski hugmyndin að lánakjör erlendra fyrirtækja sem hér starfa verði gerð hagstæðari með ríkisábyrgð? Helgi Hjörvar (og Samfylkingin) þarf að skýra það betur hvernig lánstraust erlendra fyrirtækja sem starfa á íslandi tengist inngöngu íslands í Evrópusambandið. Einnig þarf Samfylkingin að svara því af hverju hagsmunir erlendra fyrirtækja séu þeim ofar í huga en hagsmunir Íslensks almennings. Var ekki Samfylkingin örugglega kosinn af Íslenskum almenningi?
1.7.2009 | 17:02
Hvaða stefnu ætlar íslensk þjóð að taka?
Það má furðu sæta að svona hugmyndir sem miða að því að íslendingar taki málin í eigin hendur séu ekki aðal rökræðuefnið í fjölmiðlum. Er íslensk þjóð samsafn af aumingjum sem ekkert geta gert öðru vísi en undir leiðsögn erlendra auðhringa? Það virðist vera skoðun valda elítunnar í landinu.
Það Þarf að koma í gang umræðu um samanburð á afdrifum þjóða sem hafa farið leið AGS og þjóða sem hafa farið leið sjálfstæðis. Leið sjálfstæðis, er þá eitthvað í svipuðum dúr og lagt er til hér, þar sem gjaldeyristekjur af innlendri verðmætasköpun eru notaðar í uppbyggingu á innviðum samfélagsins á forsendum samfélagsins alls (ekki bara ríkustu 10 prósentanna). þar sem við reynum fullnægja matvælaþörf okkar með innlendri framleiðslu og minnkum þörf okkar fyrir innflutt eldsneyti.
Ef við rétt klórum í yfirborðið, við að skoða samanburðinn milli þjóða sem feta veg AGS og þjóða sem taka málin í eigin hendur þá er ágætis byrjun að líta á bók Naomi Klein, Shock Doctrin sem er full af dæmum um örlög þjóða sem feta þann veg sem AGS boðar. þar má nefna dæmi eins og Argentínu, Suður Kóreu, Tæland, Indónesíu, Bólivíu o.s.frv. þessi samfélög eiga það öll sammerkt að stefnan sem þau fylgdu að áeggjan AGS, olli því að stórir hópar samfélagsins lentu í fátæktar gildru. Innviðir samfélaganna, eins og menntun og heilsugæsla urðu fyrir verulegum skakkaföllum og verðmætar eignir fóru á brunaútsölu til erlendra aðila. Afleiðingarnar fyrir marga hópa í þessum samfélögum voru skelfilegar. Eitt frægasta dæmið er einkavæðing vatnsveitu (að undirlagi alþjóðabankans) í borginni Cochabamba í Bólivíu. Vatnsveitan var keypt af dótturfyrirtæki Bechtel. Sú einkavæðing leiddi til þess að borgabúar með lægstu tekjurnar þurftu að borga yfir fjórðung tekna sinna til að kaupa vatn. Margir lentu í þeirri stöðu að þurfa að velja hvort keyptur var matur eða vatn. Að lokum gerðu borgabúar uppreisn og spörkuðu Bechtel úr landi. Þetta varð reyndar upphafið af gríðarlega öflugri lýðræðishreyfingu í landinu. Dæmið um einkavæðingu vatns í Bólivíu er ekki bara dæmi um skelfilegar afleiðingar þeirrar svokölluðu nýfrjálshyggju sem þvinguð hefur verið upp á margar þjóðir, heldur eitt besta dæmið um það hvernig kúgaðir og fátækir samfélagshópar geta tekið málin í sínar hendur og snúið þróuninni við.
í Suður Ameríku eru mörg dæmi um samfélög, sem hafa á þessari öld, snúið af braut nýfrjálshyggju og tekið upp sjálfstæða efnahagsstefnu sem (í mismiklu mæli þó) eru drifin áfram með lýðræðislegri hætti en nokkurt vestrænt ríki getur stært sig af. Í mörgum tilfellum hafa ríki Suður Ameríku snúið frá hugmyndafræði hins alþjóðavædda efnahagskerfis sem vesturveldin hafa verið að þvingað upp á heimsbyggðina. þar sem svokallaðir erlendir fjárfestar hafa töglin og haldirnar í efnahagslífi þjóða. Oft með skelfilegum afleyðingum.
Sú þjóð sem var með þeim fyrstu til að snúa af braut nýfrjálshyggju og tók upp sjálfstæða efnahagsstefnu er Venezuela. Í skýrslu frá Febrúar 2009, um efnahagsþróunina í Venezuela kemur fram að verg þjóðarframleiðsla hefur næstum 2 faldast síðan 2003 (mesti vöxturinn utan olíugeirans), Fátækt hefur minkað um helming, aðgangur að heilsugæslu og menntun hefur aukist gríðarlega, ójöfnuður minnkar hratt o.s.frv.
Annað dæmi er Bóliva sem er eitt fátækasta ríki Suður Ameríku og varð skelfilega úti, undir leiðsögn alþjóðabankans, á síðasta hluta 20. aldarinnar. Endurreisn Bólivíu er dæmi um virkt lýðræði sem væri fullkomlega óhugsandi á vesturlöndum, Þar sem fátækasta fólk álfunar tók sig saman og kaus forseta úr eigin röðum með það að markmiði að breyta samfélaginu í átt að sjálfstæði gagnvart hinu erlenda og innlenda auðvaldi. Meginmarkmiðin eru yfirráð yfir auðlindum, félagslegt og efnahagslegt réttlæti, og jöfnuður til hagsbóta fyrir fátækan meirihlutann.
Fleiri dæmi, frá þessari þjáðu álfu, eru um að þjóðir sem hafa sparkað AGS og Alþjóðabankanum úr landi og fylgja nú efnahagsstefnu sem gengur út á byggja upp innviði og samfélagsþjónustu í þágu almennings. Í stað fyrri stefnu sem gekk út á að tryggja hagstætt fjárfestingar-umhverfi fyrir stóra erlenda fjárfesta.
Þær Þjóðir, þar sem almenningur hefur með samstöðu, þvingað valdhafana til að snúa frá stefnu nýfrjálshyggju hafa nær alltaf náð að bæta kjör þeirra sem verst standa, á meðan þær þjóðir sem ganga veg AGS lenda í vítahring ójöfnunar, fátæktar og áhrifaleysis. Stóra spurningin er, ætlar íslensk þjóð að taka málin í sínar eigin hendur eða ætlum við að verða áhrifalausir launaþrælar alþjóðlegra auðhringa.